Saga Trappistareglunnar

Saga Trappistareglunnar

Líklegast má rekja sögu nútíma klausturlífs Kristinnar trúa til ársins 529 f.K. Upphaf klausturlífs Kristinnar trúa nær þó líklegast aftur um u.þ.b. 3 aldir fyrir það í Egyptalandi, Palestínu og Mið-Asíu, en það var boðun St. Benedikts (ca.480-ca.547) frá Núrsíu í Montecassino, Ítalíu sem breytti sköpum 529 árum f.K. Sjón hans á klausturlífi breiddist út hægt og rólega og „hermenn Krists“, eins og þeir urðu þekktir, voru fljótlega staða ímynd klaustra Kristinnar trúar í Vestræna heiminum. „Hermennirnir“ fóru trúboði um alla Evrópu til að reisa klaustur. St. Augustine, fyrsti Erkibiskup Canterbury, var t.d. í Benediktarreglunni sem sneri Englendingum til Kristinnar trúar.

Það var í Frakklandi, árið 1098, sem Róbert frá Molesme og hópur og Benediktarmunkum stofnuðu hina ströngu Cistercian reglu. Hin almenna regla fannst þeim vera orðin og léttvæg og væri strangara stjórnafar meira við hæfi þar sem hin eina sanna regla, Regula Benedicti. Þar segir svo að munkur skuli skipta lífi sínu á milli vinnu og lectio divina (náms og hugleiðingar), eftir gildunum hlýðni, kyrrð, fátækt og auðmýkt.

Árið 1122 var byggt mikilvægt klaustur í Frakklandi. Í, Perche, suður Normandí reis klaustur í Soligny la Trappe fyrir hermenn Krists. Árið1140 skipti það svo til hinnar strangari Cistercian reglu. Cistercían reglan breiddi hratt úr sér, aðallega út af því hversu dreifð hún varð. Það var ekki fyrr en á tímabili á milli 14. og 16. aldar sem fór að draga úr skriðþunga hennar og Reglan fór að glíma við alvarlega erfiðleika. Mikilvæg klaustur lokuðu og þótti mönnum stjórnarfarið vera að linast á ný.

Það var þá 1663-1664, sem ábóti La Trappe klaustursins í Normandí tók Armand de Rançé (1626-1700) í taumana og herti aftur gripið. En önnur Cistercian klaustur voru ekki sammála afturhvarfinu og endaði það svo að samfélag La Trappe hélst háð og fæðing fyrstu Trappistanna. Iðrun, algjör þögn og grænmetismataræði var meðal athafna sem voru kynntar, sem og hvatning gegn lestri, svo hægt væri að einbeita huganum að syndabót og dauða.

Nútíma Trappistaklaustur fara þó ekki alveg eftir sjón Armand de Rançé lengur og Guði sé lof hreinlega. Hvatt er til náms og lestrar núna, þagnareiðurinn meira í áttina að vera valfrjáls í dag (Vatíkanið á sinn þátt í þeirri breytingu), kjótát er leyft og það mikilvægasta er, þeir mega drekka aðra drykki en einungis vatn – bjór já takk! Westmalle klaustrið braut blað í sögunni árið 1836 þegar bjórinn var leyfður aftur inní klaustrið þeirra.

„Dan zyn zy waalyk monniken als zy van den arbeid hunner handen leven“ eða „Þú er einungis munkur ef þú lifir af vinnu þinnar eigin handar“ (kjánalega þýtt). Þessi fertugasta og áttunda regla St. Benedikts er ein sú allra mikilvægasta fyrir Trappistaregluna, er stór ástæða fyrir Authentic Trappist Product skjaldarmerkinu sem ég kem inná seinna en Trappista munkarnir framleiða gríðarlega fjölbreytta flóru af vörum, bjór, styrkt áfengi (t.d. eimar Koningshoeven La Trappe Dubbel í 30% drykk), sápur, osta, hreinsiefni, húðvörur, brauð og margt fleira.

Og smá þjóðsaga í lokin. Nafn upprunalega klaustursins í Normandí, Frakklandi er La Trappe, og gríðarlega margar sögur af spunnið í kringum nafnið. Þannig er að La Trapp getur þýtt tröppur eða gildran. Seinna nafnið kemur þökk sé þjóðsögu að klaustrið væri staðsett í litlum dal sem aðeins væri hægt að komast að í gegnum þröngt skarð. Klaustrið er aftur á móti í fallegri sveit og er nafnið gefið af íbúum Perche út af þeim tröppum sem maður gengur niður til að komast að fjölda vatna og tjarna þar sem fiskur er veiddur.

Template-La-Trappe-Corporate-brochure_Translate

Saga Koningshoeven ( La Trappe)

Síðan í sumar hóf áttunda brugghúsið sölu á bjór. Það var Mont des Cats í franska Flæmingjalandi, en reyndar er það Abbey Notre Dame (Chimay) sem bruggar hann. Mont des Cats á nokkuð langa sögu og var t.d. St.-Sixtus (Westvleteren) klaustrið stofnað árið 1831 af munkum úr Mont des Cats klaustrinu. Árið 1880 var lögleidd löggjöf

gegn klaustrum og voru munkarnir tilneyddir til færslu frá Frakklandi, klaustrið stóð það þó af sér og er notað enn þann dag í dag en Dom Domenica Lacaes, ábóti klausursins fyrirskipaði leit að athvarfi erlendis. Ábótinn leitaði ráða hjá Dom Sebastien Wyart, guðfræði nema frá Róm. Dom Sebastien kom niðrá stórt svæði í eigu Houben fjölskyldunnar í Tilburg, Hollandi. Akurinn var áður í eigu konungsins og bar ennþá nafn síðan að Guillaume II bjó þar, „Konings hoeven“ eða „konungsgarður“.

Þessi bær, Tilburg, þótti mjög heppilegur af þeim sökum að hann var staðsettur við landamæri eins og var algengt með klaustur. Í desember 1880 fór Faðir Sebastian til Tilburg á fund skipulagðan af prestastétt Tilburg með ullarverkamanninum og þáverandi eiganda Koningshoeven, Caspar Houben. Koningshoeven var þá 50 hektara land með stórt fjárrétti og tvær minni byggingar. Fyrst var samið um þriggja ára leigusamning án greiðslu en síðar seldi Caspar munkunum klaustrið gegn vægu gjaldi. Caspar meira að segja hjálpaði til við að reisa klaustrið.

Í febrúar 1881 fluttu munkarnir inní nýja klaustrið sitt og var búið að útbúa fjárréttinn svo að hægt væri að halda trúarstund þar í mars, fyrsta trúarsamkoman var haldin 5. mars og fór fyrir henni maður með æðislegt nafn, Faðir Franciscus De Beer.

Reynt var að lifa af landinu en erfiður jarðvegurinn gerði það að verkum að uppskeran var tæplegast vinnunnar virði. Þegar fór að fjölga í klaustrinu dugði landið ekki til að lifa af og ég þá „Ábótinn“ (ekki kirkju vottað klaustur), Nivardus Schweykart, en hann var sonur bruggara, fékk þá flugu í hausinn að setja upp brugghús. Enn þann dag í dag er brugghúsið aðal tekjulind Koningshoeven, brugghúsið sem var sett upp af förumunkinum Romaldus og 13. Apríl 1885 sótti Koningshoeven um leyfi til að byggja brugghús og malthús. Isidorus Laaber (varð svo seinna rafvirki klaustursins), sendur til Munich að læra bruggun af Nivardus, var fyrsti bruggmeistarinn og gaf af sér fyrsta bjórinn árið 1884. Bjórinn var í stíl dökkra lagerbjóra Munich á þeim tíma og var það ekki að ástæðulausu, þar sem venjan á svæðinu voru yfirgerjaðir bjórar, en ákveðið var að reyna að skjóta þeim ref fyrir rass með nýjungum. Sá bjór bar þýskt nafn, Bernardiner Bräu og tók miði bjórsins fram heiti klaustursins á þýsku, Abtei Königshöfe, en það var bjórinn sem hét síðar Schaapskooi. Þrátt fyrir þær tilraunir gáfu munkarnir eftir á endanum og hófu að brugga yfirgerjaða bjór sem slógu í gegn eftir erfiðar fyrstu laganir. 1886 var Koningshoeven orðið samkeppnishæft við bruggara svæðisins.

Klaustrið græddi þó mun meira á bjórnum, en bara fjárhagslega með sölu á honum. Á þessum tíma og aftur sem lengstu menn muna hefur bjór verið mjög mikilvægur heilsu manna. Vatnið er auðvitað soðið og því er mun minni hætta á sníkjudýrum og fleiri óþekktum í bjór en flestum öðrum drykkjum. Þá voru gistiheimili þessara tíma yfirleitt klausturin og venjan var að bjóða ferðamönnum og gestum upp á drykk, í suður Evrópu var það vín og styrktir drykkir úr vínberjum en á þessu svæði var það bjórinn góði.

Árið 1891 fagnaði Koningshoeven því að fá klausturstöðu (fyrsti Ábóti var Dom Willibrord Verbruggen) , með því að bæta við byggingu sem átti að taka 200 manns. Kirkju klaustursins var svo vígð 17. september árið 1894 og var Koningshoeven þá fyrsta kaþólska klaustrið í Hollandi. Fjórum árum síðar var brugghúsið farið að gefa af sér nægilega mikið svo Koningshoeven gat opnað klaustur í Zundert.

Ábóti klaustursins ́13 til ́45, Faðir Dom Simon Dubuisson uppgerði og stækkaði brugghúsið árið 1926. Eftir dauða hans kom hrina viðbóta og endurbóta á brugghúsinu. Voru þá við vinnu þar 150 munkar og var byggt límonaði verksmiðju árið 1950, fengin nýja vél til gerilsneyðingar árið 1957, ný rannsóknarstofa opnuð tveimur árum seinna og árið 1967 var splæst í nýjum ger- og gerjunartönkum.

Næstu ár voru flettuð öðrum brugghúsum. Í október 1969 samningsbruggaði Koningshoeven fyrir Artois samsteypuna frá Leuven og það einungis Pilsener stíl bjóra. Koningshoeven bruggaði einnig sína eigin Pilsener bjóra þá. Artois endaði samstarfið við Koningshoeven í apríl 1979 og athyglivert er að Leuven kom ekki nálægt trúarlegu starfi yfir allt tímabilið. Á síðasta áratug aldarinnar réttu Koningshoeven Chimay hjálparhönd þegar að Chimay stóð ekki undir eftirspurn og brugguðu Chimay Blanche þar til að stækkun var hjá Chimay. Það var þá

sem Koningshoeven tók við brugguninni á ný, og enn og aftur aðstoðuðu annað brugghús þegar að Heineken fékk lánaðan hluta framleiðslugetunnar á árunum 1990 til 1996, og var allt komið á fullt 18. janúar 1980. Nafnið sem við þekkjum í dag var fyrst notað, með Bróðir Eligius Martens fremstan í flokki sem framleiðslustjóri brugghússins, yfirborðgerjaðir bjórar sem bera heitið La Trappe og í fyrstu var leitað í uppskriftir sem notaðar voru á fimmta áratugnum. Koningshoeven heitið var reyndar enn notað í markaðsetningu.

Um það leyti var farið að hrörna ansi mikið mannskari klaustursins. Frá því um 1970 fór að fækka ungum mönnum sem sóttust eftir munkdómi, þónokkuð var um munka sem sögðu skilið við klausturlífið og með því fór meðalaldur munkanna að hækka.

1987. Guði sé lof fyrir 1987 í sögu Koningshoeven. Nýtt brugghús var byggt, allt tekið í gegn og fært í nútímahorf og nýr ger- og lagerkjallari byggður. Sumir tankarnir voru það stórir að þeir komust ekki inn um dyr klaustursins! Brugghúsið var svo tekið í notkun árið 1989. En það er aðeins smáatriði við hliðina á merkari atburðum 1987, frumburðunum La Trappe Dubbel og La Trappe Tripel var tappað á flöskur. Dubbel kom árinu áður, 1986, á kúta og var upprunalega bruggaður í 6,5% styrk en er núna bruggaður í 7% styrk á meðan Tripel er 8% frá fæðingu. Dubbel var nýr á nálinni hjá brugghúsinu en Tripel var uppfærð og sterkari útgáfa af eldri týpu. Fyrir það voru þeir ekki merktir en þegar að þeir urðu stólpar línu Koningshoeven báru þeir nöfn sín á latínu, Duplus og Triplus (og einnig voru Enkel og Quadruppel með heitin Angelus og Quadruplus). Fram að því var aðal bjórinn þeirra kallaður einfaldlega Koningshoeven, en mætti miklu mótlæti frá heimamönnum þar sem að Koningshoeven hafði ennþá pilsner stimpilinn á sér eftir samstarfið við Artois.

Árið 1991 var vörumerkið La Trappe tekið upp, Koninghoeven nafnið var þó enn notað í Bandaríkjunum til 2010, endurþróað gerstofninn og fyrsti árstíðarbjórinn kom fram á sjónarsviðið. Það var Quadruppel sem við þekkjum nú sem einn af þeirra aðalbjórum. Athuga að La Trappe á nafnið Quadruppel, þrátt fyrir að stílnasistar í Bandaríkjunum og víðar hafa tekið uppá því að nefna ákveðnar týpur af þungum, dökkum, belgískættuðum bjórum Quadruppel-stíl. Enkel kom þá ári síðar, árið 1993. Enkel var þróaður hálf blindandi og fékk alltaf fyrst miða með engum upplýsingum. Sá var þróaður með Westmalle Extra sem fyrirmynd. Sá stóð í tæp 7 ár þegar að Enkel var skipt út fyrir La Trappe Blond 1. janúar 2000.

Snemma árið 1999 hófst samstarf á milli Koningshoeven og Bavaria samsteypunnar frá Lieshout. Samstarfið hófst í apríl, aðeins örfáum vikum eftir að Koningshoeven hóf leit að aðstoðarsamsteypu. Var þetta álíka samstarf og við Artois á sínum tíma, en Bavaria tók ekki bara og tók heldur gaf til baka. Koningshoeven leitaði eftir tæknilegri aðstoð, mannafla og aðstoð við dreifingu og markaðssetningu.

Í byrjun desember það sama ár missti svo Koningshoeven uppruna vottun Trappistareglunnar. Athyglivert að bróðir Bernardus sat samt áfram fundi reglunnar. Það hjálpaði mikið til að Bróðir Bernardus gat talað beint við aðra meðlimi ITA (International Trappist Association). Þar byrjaði ferlið að fá merkið aftur. Hann heyrði hvað þurfti til að hægt væri að samþykja svona samstarf og á endanum var það gert. Byrjað var að sannfæra stjórn ITA að Bavaria ætti ekki Koningshoeven, né nokkurn hluta af klaustrinu, brugghúsinu, o.s.frv., heldur væri þetta samstarf. Sannarlega var svo sýnt fram á að munkarnir komu að því sem þeir gátu og vildu tengt bjórframleiðslu, markaðsmál eru í höndum Bavaria en allt verður að fá samþykki frá munkunum. Búðin í klaustrinu er mönnuð af munkunum. Klaustrið ræður að sjálfsögðu öllum uppskriftum og stýrir gæðaskoðunum á bjórum sínum. Klaustrið þarf að samþykkja allar auglýsingaherferðir, breytingar á útliti, allt hráefni og svo framleiðis. Bavaria skaffar starfsfólk og fær að nýta alla aukaframleiðslugetu eins og þeir vilja, sem þeir nýta þó ekki alltaf til fulls.

9. september 2005 var svo vottað upprunavottað bjóra Koningshoeven á ný. Bróðir Bernardus gaf út þá tilkynningu að stjórn ITA hefði komist að þeirri niðurstöðu að munkar klaustursins væru enn með puttana nægilega mikið í málunum að þetta væru munkabjórar, sem og hafði hann gefið út þá tilkynningu áður að almenningur hefði einfaldlega of rómantíska sýn á Trappistaklaustrunum. Það er, að munkarnir væru með allt á

hreinu í þessu, að dunda sér við suðuna, sötrandi á bjórunum og biðjandi þess á milli. Í raun er eina klaustrið sem enn fylgir því St. Sixtus í Westvleteren.

Bavaria er enn fjölskyldurekið, annað en flestar aðrar bruggsamsteypurnar. Það er Swinkels fjölskyldan sem á Bavaria og er Lodewijk Swinkels einn af fáum starfsmönnum Bavaria sem vinna djúpt í Koningshoeven, einna helst Thijs Thijssen einnig og Joost van Beers. Thijs er Verkstjóri (General Manager) brugghúss klaustursins og hefur verið innan veggja Koningshoeven síðan 1999 og Joost van Beers yfirbruggmeistari. Þá er Lodewijk Swinkels framleiðslustjóri hjá Koningshoeven. Lodewijk var yfirbruggmeistari hjá De Kroon brugghúsinu, sem Bavaria átti og bruggpöbbnum Oudaen. Lodewijk lærði í Weihenstephan bruggskólanum og með sinni miklu reynslu átti hann mikinn þátt í þróun bæði La Trappe Witte og La Trappe Bockbier.

Þetta er ekki eina sem hefur gerst frá aldamótum en Koningshoeven hefur verið langduglegast af Trappistaklaustrunum að bjóða upp á nýja bjóra og nýjungar. Árið 2001 var fyrsti hveitibjór Trappistabrugghúsanna kynntur. La Trappe Witte er byggður á bjór sem bruggaður var um miðja síðustu öld en er þó vel uppfærð uppskrift. Leiðinlegur misskilningur er í gangi að La Trappe Witte sé Oirschot Wit ( De Koon), en það er ekki rétt. Witte var upprunalega sumarbjór en sökum eftirspurnar er hann bruggaður allt árið.

Árið 2004 var svo bock bjór aftur fáanlegur frá Koningshoeven. Eins og í Þýskalandi er hefð fyrir Bock bjórum í Hollandi. Koningshoeven átti bock bjór í denn og ákveðið var að endurvekja hefðina, uppfæra uppskriftina og bjóða upp á góðan haustbjór. La Trappe Bockbier bættist því við línuna og er enn þá bara bruggaður á haustin, en fáanlegur allt árið. Í skemmtilegu bock menningu Hollands fékk La Trappe Bockbier verðlaun sem besti bjórinn eftir stíl árið 2010.

Það liðu þá 5 ár þar til næsti bjór kom. 2009 fagnaði Koningshoeven 125 ára afmæli með sterka belgíska ljósölinu La Trappe Isid ́or. Bjórinn heitir í höfuðið á fyrsta bruggmeistara Konginshoeven, Faðir Isidorus. Með því að kaupa þennan bjór styrkir maður starf klaustursins í Úganda. Isid ́or átti að vera einungis bruggaður fyrir afmælisárið en situr nú sem fastast í La Trappe línunni allt árið um kring.

Þetta sama ár var byrjað að þroska La Trappe Quadruppel í eikartunnum. Árið 2010 var svo lífrænn bjór þróaður hjá Koningshoeven, La Trappe PUUR. 1. júní 2010 kom þá fyrsta töppun af La Trappe Quadruppel Oak Aged, þegar að bjórinn hafði setið á tunnum í 12 mánuði. Það er mjög gaman að skoða á heimasíðu La Trappe hvernig er verið að blanda bjórinn hverju sinni en hann er aldrei eins blandaður af tunnunum að undanskildum lögunum 5 og 6.

Einnig er fáanlegur á Íslandi Tilburg ́s Dutch Brown Ale sem Koningshoeven bruggar fyrir Bavaria. Miði Tilburg ́s Dutch Brown Ale er mjög áhugaverður þar sem hann skartar karakter úr frægu málverki Hieronymus Bosch, „The Garden of the Earhly Delights“, um 500 ára gömlu málverki. H. Bosch fæddist stutt frá Koningshoeven.

Glasses

Byrjum bara á Tilburg ́s Dutch Brown Ale.
Tilburg ́s Dutch Brown Ale er þægilegur 5% bjór. Hann er karamellubrúnn með rauðum blæ og gefur væga froðu og þó nokkuð af kolsýru. Lyktin gefur mikið af karamellumalti og smá ristuðu malti, toffí, smá súkkulaði, þurrkaða ávexti og jarðkennda humla. Áhugavert að finna ljósar nótur eins og hunang í ilminum. Bragðið er lyktinni mjög áþekkt en virkar bara minna af öllu. Hann er með ágætis fyllingu, mjúkur og frekar þurr, en virkar með meiri sýru en maður þekkir oft úr brúnölum úr ýmsum áttum. Hvernig pörum við hann þá með mat? Við erum með nokkuð sætan bjór, með þurru eftirbragði og smá sýru. Þetta allt gerir hann kjörinn með kjöti, en þurfum að passa örlítið upp á kryddhita út af sýrunni. Tvennt sem við viljum ekki saman. En kjötsafi og sætar sósu smellpassa.

Bjórinn gengur vel með salati, sérstaklega þökk sé sýrunni, það er gaman að hafa svona milda brúna bjóra með salati, en það gefur alveg nýja vídd. Grillað grænmeti er flott með bjórnum. Mildur kjúklingur, á spjóti eða í salati jafnvel, gengur frábærlega. Þá á bjórinn mjög vel við kartöflur, eins og grillaðar kartöfluskífur, þar sem

jarðartónar bjórsins harmonera vel. Hægt er að troða kjúkling, grænmeti og kartöflum á spjót, setja mildan sætan lög og grilla. Kjúklingur í lög, eins og mangó og fleira á þeim nótunum. Hann er reyndar bara mjög hrifinn af kjúkling og einnig svíni. BBQ rif, svínakótilettur og svínalundir. Allt eitthvað sem bjórinn er sáttur með. Grillaðu kjötið, ekki hafa það of kryddheitt og þarna ertu með nokkuð þéttan bjór. Þá hefur bjórinn virkað vel með einföldum stórsteikum, eins og folaldakjöti beint af grillinu.

Þennan má svo grípa með hörðum og föstum ostum sem hafa hnetu og/eða karamellu takta. T.d. Gouda osta, ekki skemmir þegar þeir hafa valhnetur og svissnesku föstu ostana eins og Emmenthaler.

La-Trappe-Witte-Trappist-75cl-+-Glasses-Outside

La Trappe Blonde er mildur 6,5 rauðgylltur bjór. Blond er ekki flöskugerjaður annað en hinir þrír í kjarnalínunni. Blond gefur þér ekki langvarandi froðu, en hentuga kolsýru. Blond hefur skemmtilegan ávaxtaríkan ilm, með blómum, malti og geri. Flæðir svo yfir hunang og krydd með í bragði ásamt ávöxtunum og maltinum og endar svo á smá humalbeiskju. Mjög frískandi, ögn sætt yfirbragð en þurrt eftirbragð.

Hvernig pörum við hann þá með mat? Örlítil malt sætan og ferskir ávextirnir kalla mjög mikið á ljóst kjöt eða salat. Blond er flottur sumarbjór enda góður með grillmat. Örlítil sætan sem fylgir yfirleitt grillmat og hvað þá marineringum og sósum og svo getan til að ráða við örlítin kryddhita. Hunangið í bragðinu getur svo virkað eins og dressing á salat.

La Trappe Blonde fer eins og áður sagði vel með salati. Sumarlegt salat og skemmir ekki ef það er skelfiskur eða kjúklingur í salatinu. Virkar vel þó að sett sé á salatið balsamedik, en ekki of mikið. Fyrir ostafólk eru góður, mildur geitaostur, Feta og jafnvel Brie eða Camembert. Sjávarréttir fara mjög vel með bjórnum og sér í lagi skelfiskurinn. Þá krækling með alioli og frönskum, grilluðum humri og svo jafnvel grilluðum lax, en besta pörunin fæst ef laxinn er jurtakryddaður, t.d. með rósmarín. Annar hvítur fiskur virkar vel, eins og þorskur og skötuselur. Skötuselurinn sem oft er maríneraður með t.d. mangó og grillaður er gott dæmi. Kjúklingaréttir er mögulega hans sterkasta hlið. Grillaður kjúklingur með læm og hvítlauks, hann elskar kjúkling með sítrus. Kjúkling með mildri bbq sósu eða nuddi. Flott líka að bjórinn til að vökva heilsteiktan kjúkling sem kryddaður er með jurtum. Svínakjötinu má svo ekki gleyma, en góðar svínakótilettur, svínalundir og jafnvel svínapylsur (þá má reyndar blanda fleiri dýrum í þær) fara vel með Blonde, ennþá betur með sætri maríneringu og beint af grilli! Jafnvel gömul og góð grilluð samloka með skinku og osti er vinur bjórsins.

Ljósir belgískir bjórar hafa mikið dálæti af etnískum mat og er þessi ekkert frábrugðinn. Tandoori kjúklingur, karrí jafnvel, Marokkó kjúklingur og indverskt Korma gengur allt frábærlega með La Trappe Blonde. Kryddin finna samleik með mildri maltsætunni og krydduðu gerinu, ásamt því að ferk kolsýran hreinsar allt upp og núllstillir. Kínverskir réttir, kjúklinga, lamba og svína ganga vel með bjórnum, sem er mjög hrifinn af soja sósu. Á þeim nótum má nefna að bjórinn er ágætur með sushi, líka bara ekkert sérstaklega vel við wasabi.

Eftirréttir sem ganga eru t.d. Cremé Brulée eða áþekkir eggjabúðingar. Sítrus ávaxtabaka, eða bara flestar ávaxtabökur sem eru ekki of sætar, með ljósum ferskum ávexti og jafnvel rabbarbarabaka. Af ostum eru það áðurnefndir Feta, geitaostar, Brie og Camembert sem ganga að öllu jöfnu.

La Trappe Dubbel er dökkbrúnn bjór fæddur til að drekka með mat. Hann er flöskugerjaður og er í núverandi útgáfu 7%. Gefur fallega froðu og ágætis kolsýru, en dempast fljótlega að öllu jöfnu. Ilmur af malti, geri, lakkrís, kandís, dökkum ávöxtum og ferskum appelsínubörk, t.d. Geta verið epli líka ef flaskan er glæný. En með aldri laumast með gríðarlega skemmtilegur ilmur af púðursykri og kandíslyktin eykst og eykst. Maltið, kandísinn og dökkir ávextir virka vel í bragði ásamt gerinu, en sultaðar rúsínur bætast við. Hann er ekki án humla í bragði. Eins og oft með ger trappistabrugghúsanna þá fylgir því mikill kryddkeimur í bragði og ilm. Bjórinn hefur góða sætu með ögn þurri og sýruríkri endingu.

Hvernig pörum við hann þá með mat? Við höfum nokkrar aðferðir með svona matarbjór. Hann hefur sætu og er meira að segja með sætari bjórum í stílnum, sem gerir hann hentugan með rauðu kjöti og krydduðum mat og þar skemmir ekki kryddið í sjálfum bjórnum. Flóknir bjórar sem elska flókinn mat. Sæt malt og kryddað og villt ger með villibráð. Sýran hjálpar líka með villibráð. Hið frábæra jafnvægi sem þessi bjór hefur gerir hann einnig skemmtilegt hráefni við matargerð.

Byrjum á skemmtilegu. Þessi bjór, þegar hann er með smá aldri, er stórkostlegur með hamborgarhrygg. Sætan, kryddið og kandísinn harmonera rosalega vel með svona reyktu svínakjöti, en stendur sig ekkert ver með öðru svínakjöti. Sérstaklega rifjum, en það er jafnvel hægt að hræra hann út í BBQ-sósuna og purusteik. Bragðminna svínakjöt, eins og kótilettur og hnakki mun þó líklega vera kaffært með bjórnum. Hann virkar með nær öllu nautakjöti, en sérstaklega gott með góðum vöðva sem fengið hefur að liggja í bjórnum. Best stendur hann sig þó með lambinu og er á heimavelli með okkar villikryddaða íslenska lambi. Íslensk lambalæri með brúnuðum kartöflum og öllu, nammi. Karamella bjórsins er mjög hrifinn af karamelluðu skinni lambsins.

La Trappe Dubbel er algjör hátíðabjór og ásamt stórkostlegri pörun með hamborgarhrygg og lambalæri er þetta bjór sem er frábær með villtum fuglum. Þá sérstaklega önd, þar sem rúsínur og sæta bjórsins harmonera æðislega með dökku kjöti andarinnar. Talandi um fiðurfé, foie gras og svona sætur dúbbel er líklegasta besta pörunin sem ég hef rekist á fyrir utan Oude Bruin og foie gras. Villipaté, sérstaklega sveita-, og eða hreindýrapaté með sultu og La Trappe Dubbel er frábært. Mæli sérstaklega með sveitapaté og heimagerðri bláberjasultu. Þá má að sjálfsögðu ekki gleyma æðislega vetrarréttinum, flæmsku karbonaði, en unaðslegt er að nota bjórinn sem grunn í þann rétt. Þá virkar bjórinn, með flestum pottréttum og kássum. Hann fer æðislega með flestum dökkum sósum, er ástfanginn af sveppum sem og dökku kjöti og gengur vel með elduðu grænmeti út af mildum brennisteinskeim í bjórnum. Ást hans á sveppum leyfir honum einnig að vera með í flestu sem sveppir gera, jarðartónarnir með villisveppum er æðislegt (sósan með hamborgarhryggnum…) og það er heldur ekki leiðinlegt að brúna sveppi á pönnu með smjöri og bjórnum. Nú, að lokum, vel karamellaður, heilsteiktur kjúklingur, kryddaður með rósmarín og fleiri skemmtilegum jurtum, brún sósa (sem nota má bjórinn í) og franskar… frábært.

Svo má ekki gleyma. La Trappe Dubbel er frábær pitsu bjór og sterkur með lasagna reyndar líka. Lasagnað má vera nokkuð sterkt, ekki skemmir ef það eru alvöru ostar í því og það tekur vel í kryddpylsu lasagna. En með pitsum. Beikon pitsa með skinku og ostum, dúbbel… pitsa með vel krydduðum, jafnvel bbq kjúkling, dúbbel…grænmetispitsa með sveppum og „brennisteinsgrænmeti“, dúbbel… Svo nokkur dæmi séu tekin.

Eftir mat má svo taka bjórinn með flestum góðum súkkulaðiréttum. Mjólkursúkkulaði, góðum og þykkum súkkulaðibúðing, trufflum og því eldri sem hann er, því móttækilegri er hann fyrir sykurbráð með. Með belgískri súkkulaðiköku er þroskaður Dubbel frábær, en bæði ungur og þroskaður virka með ávaxtatrufflum.

La Trappe Tripel er fallega djúpappelsínugulur / bronslitaður bjór, seiðandi gosaður, örlítið skýjaður og gefur manni fallega dúnkennda froðu. Lyktin af bjórum í Tripel-stíl er einstök. La Trappe Tripel býður upp á æðislegan keim af geri, appelsínum, perum, kóríander og öðrum kryddum, fíkjum og karamellu. Í bragðinu erum við í kjarna með það sama, gerið, appelsínur, perur, kóriander, karamellu en fáum æðislega mjúkan hunangskeim og svolítið af bitrum humlum í frekar áfengan bjórinn. Frábær fylling, örlítil sæta með hunanginu en matarlega þurr með mjög hreinsandi kolsýru.

Hvernig pörum við hann þá með mat? Við viljum leita að ljósu kjöti fyrst og fremst, ljósu fuglakjöti. Kryddið og appelsínan ráða miklu í hvernig matur er kryddaður og maríneraður, þ.e. bjór með ávaxta-, sérstaklega sítrusmaríneringu fer vel með honum og kryddað gerið hreinlega elskar jurtakryddaðan mat, basilíka, tímían, rósmarín, salvíu og hvítlauk. Djúsí ávöxturinn, mild sætan og kryddin leyfa manni líka að takast á við smá kryddhita, eins og t.d. Cajun.

Byrjum á sjávarréttum. Hörpuskel er mjög hrifin af La Trappe Tripel og aðrir bragðmildir fiskar á við sardínur og kolkrabba, þar sem olíukennd áferðin fer vel með olíukenndri áferð bjórsins. Olíuríkari fiskar eins og lax og góð bleikja af grillinu. Fleiri fiskar virka ef sósan er hentug, eins og góð og frískandi sítrus og kryddjurtasósu, en þessi olíuríkari virka best. Þá er reyndar túnfisk carpaccio og Tripel mjög álitleg pörun og stórir, feitir, vel hvítlauksmarineraðir humarhalar sömuleiðis. Pestó sósa, já pestó sósa og La Trappe Tripel er stórkostlegt. Við getum verið með al dante spaghettí með kjúkling í pestó, hvítlauk og læmbörk, fiskiofnrétt í pestó eða bara klassíska pasta og pestó. Allt stórkostlegt. Hæfni bjórsins með hlutum eins og pestó, ferskum jurtum, hvítlauk, kryddi og gera hann mjög hentugan með Miðjarðarhafsmatarhefð. Margt af þessu sama, með hunangið að auki gerir La Trappe Tripel hentugan með suðaustur asískri og indverskri matargerð. Tikka Masala kjúklingur

og Saag Paneer eru dæmi um rétti sem sóma sig stórvel með bjórnum. Þar sem La Trappe Tripel er í sætari kantinum fyrir stílinn þá á hann helling erindi með sætari sósum mið- og suðuraustur asískrar matargerðar. Það er ekki einu paranirnar með þjóðlegum réttum, en þökk sé kryddinu, ljósum tónum og smá sætu, virkar hann vel með mexíkóskri matargerð, eins og quesedillas, en það má ekki vera of kryddað og nokkurn veginn háð því að mikið sé af grænmeti eins og papriku og ost.

Fuglar eru líklega ein öruggasta pörunin sem þú finnur. Það getur verið kjúklingur, heil eldaður með jurtum og fínerí, í pestó, með hvítlauk og öllum áðurnefndum jurtum. Asískur kjúklingur með basilíku eða kjúklingabringur með góðum brie og hráskinku, sem eru alveg frábærar, sérstaklega þær ögn sætari. Kalkúnn er ekki síðri. Þar sem La Trappe Tripel er ögn sætari en margur, þá viljum við hafa sósuna aðeins sætari, en kalkúnn með stöffing og ég tala nú ekki um ef það er sett einhvern sítrus ávöxt í stöffingið, glæsilegt. Kalkúnabringa með ferskum aspas og gúmmelaði er einnig frábært. Villibráðafuglar með ljósu kjöti skotganga flestir ef ekki allir með bjórnum, fasani, korn-, og akurhæna til að mynda.

Þar sem þetta er nokkuð hátíðlegt hjá okkur núna, má nefna að hann er stórfínn með hamborgarhrygg sömuleiðis, en því dekkri og þyngri sem heildarmáltíðin er, því meira fer að halla undan fæti. Svínið er það kjöt sem hann er hrifnastur af fyrir utan fisk og fugl. Góðar svínalundir, fylltar með góðum ost og hvítlauk t.d. Gamla góða bara, ekki of sterkkryddað eða of sætt, en ef það er eitthvað af uppáhalds jurtakryddunum okkar, hvítlauk, pestó eða ljósum ávöxtum, er flott að eiga La Trappe Tripel.

Eftir mat? Jú, hann er ágætur eftir mat en hann nýtur sín best fyrir mat. Af eftirréttum er nokkuð öruggt að para hann með t.d. soðinni peru með kanil og appelsínuostaköku. Ávaxtaböku, getur verið peru, appelsínu eða jafnvel apríkósu. Allir þessir eftirréttir spila út á ávöxtinn og hunangið í bjórnum og hreinsandi áhrif kolsýrunnar.

Ostavalið er ágæt en nokkurn vegin hallast að fitumiklum ostum. T.d. „triple-créme“, sem eru mildir á bragðið en feitir og virkar bjórinn vel með honum út af háu alkóhólmagni og kolsýru sem hreinsa munninn. Ossau-iraty, Marisa og Brie eru ostar sem ganga með bjórnum sem og hinir ýmsu chevré og bijou ostar. Þá á gráðaostur nokkuð erindi með bjórnum, en frekar mildari en meiri.

La Trappe Quadrupel er dökkbrúnn bjór með djúpum rauðleitum blæ og ljósbrúnni froðu. Yfirleitt fær maður þokkalega froðu, sem stendur reyndar ekki lengi og ljúfkolsýrðan bjór. Lyktin af þessum er nær aldrei eins, en þú getur stólað á að finna æðislega karamellaðan maltilm, kryddaða gertóna, kaffi, súkkulaði, döðlur og eplagertóna. Bragðið er álíka maltað en gefur ekki alveg jafn mikið af geri. Karamella, súkkulaði, lakkrís, dökkir ávextir, súr kirsuber og kryddað eftirbragð með alkóhólinu. Hann er þokkalega sætur með langt, fullt eftirbragð og slatta af hita.

Hvernig pörum við hann með mat? Þetta eru bjórar sem mér finnst oft standa best einir og sér. Maður er með mikinn og þungan bjór og ef maður vill samræmi þá þarf maður bragðmikinn mat. Gerið, maltsætan og ávöxturinn gera hann heppilegan með villibráð. Hin ýmsu bragðeinkenni kalla svo á eftirrétti.

Þetta verður ekkert svakalega langt þar sem þessi bjór á best við í glasi eftir stóra máltíð, jafnvel með vindil við hönd. En við skulum athuga hvað kemur til greina. Í forrétt væri hægt að hafa hann með bragðmiklu salati, helst með góðum fituríkum ostum, avókadó, peru en lykillinn er eflaust að hafa eitthvað eins og kirsuberja eða hindberja vínedik með. Þar leitar maður í súru kirsuberin í bjórnum, sem og með ostinum ásamt maltsætunni. Nú þá myndi eitthvað eins og gráðaostafylltur portobellosveppur úr ofninum ganga eða flestir svepparéttir. En því villtari, því betra. Í aðalrétt kemur fátt til greina annað en gott kjöt. Enda á gott kjöt skilið bjór sem þennan. Það hefur þó verið vandamál að kæfa ekki kjötið. Þú vilt hafa kjötið þitt lítið eldað, svo sætan úr kjötsafanum leiki við sætuna og ávextina í bjórnum. Hægt er að taka folalda-, eða nautalund/fillé og bera fram með salati eins og forréttasalatinu, stökkum kartöflum og sósu úr bjórnum. Allra flottustu lambalærin ganga einnig með þessum bjór, en þá viljum við hafa það svolítið dökkmarínerað, jafnvel bara með íslenskum aðalbláberjum. Þá er hægt að taka þessar steikur og bera þær fram með Béarnaise sósu, en skiptar skoðanir eru þar. Ég er einn þeirra sem hefur ekki sannfærst þar. Góður pottréttur myndi ganga vel upp, sem og flestir frekar feitir réttir. Pottréttir, cassoulet, og það enn betur með nokkrum sopum af bjórnum út í.

Villibráðin er þar sem bjórinn stendur sig best. Flest sem telst dekkri villibráð skotgengur, þ.e. villibráðin

með keim af súkkulaði eins og önd, gæs og dúfa. Þá finnst hreindýrinu ekkert leiðinlegt að fá að vera með í teitinu heldur. Hægt er svo að gera pörunina enn betri með sósum eins og lakkríssósu eða sósu úr súrum kirsuberjum, nú eða nota súr berjahlaup með. En, passa bara að sýran sé ekki of mikil.

Nú erum við komin að eftirréttunum og þá fer þessi bjór að skína enn meir. Við getum parað með súkkulaðinu og maltsætunni með hinum ýmsu súkkulaði kökum, súkkulaðiostaköku. Mér finnst of stórar súkkulaðikökur, eins og belgísk súkkulaðikaka vera of mikið, en þar eru ekki allir sammála. Með ávextinum, maltsætunni og súrum kirsuberjunum er hægt að koma með heilan haug af ávaxtaeftirréttum og rjómakenndum eftirréttum. Cremé brulée, ávaxtaostakökur og ávaxtaís til að nefna nokkra. Nú, eða bara hágæða vanilluís. Það er heldur ekki leiðinlegt.

Þá eru það ostarnir. Við viljum hafa þá frekar þroskaða, frekar góða fyllingu og yfirleitt rjómakennda. Það eru góðir blámygluostar, það eru góðir, þroskaðir Brie, feitir Cheddar, jafnvel þroskaður Gouda og hinir ýmsu fastir ostar.

La Trappe Quadrupel Oak-Aged

Lítið farið í þennan stórkostlega bjór. Hann er sjaldan með sömu eik þegar hann fer á tunnur og því mjög misjafn eftir lögunum. En það má stóla á að fá slatta af eik, vanillu og hálfgerðum rommkúlum með eikinni. Þetta gerir hann enn eftirsóknarverðari eftir mat. Hann jarðar flest alla for-, og aðalrétti, nema kannski villiönd í bjór- og súkkulaðisósu með kirsuberjahlaupi. Þið fattið hvert ég er að fara með þetta. Eftirréttirnir og ostarnir henta þó enn, þarf bara að sjá með hverri lögun.

La Trappe Witte er útgáfa Konginshoeven á belgískum hveitibjór. Hann er fölgulur og þokkalega skýjaður. Kolsýra og froða í ætt við stíl, þ.e., girnileg, nokkuð þykk froða sem fer fljótlega og góð kolsýra. Bjórinn er fallegur og lýtur út fyrir að vera svalandi. Í nefi fær maður sítrus, krydd, appelsínu, gamalt hveiti, lauf og smá banana meðal annars. Banani, epli og kóríander, mjókurtónar, hveiti og ger er meðal þess sem maður má búast við að finna í bragði. Hann hefur ákveðið hunangsbragð sem veldur blekkingu af sætu, en bjórinn er þurr og með frískandi sýru. Hann er nokkuð einfaldari og mýkri en margir bræður hans í sama stíl.
Hvernig pörum við hann með mat? Allstaðar þar sem þú getur hugsað þér að bragðbæta með sítrus, á þessi við. Hann hefur kolsýruna og ferskleikann til að tækla vel kryddaða rétti. Við viljum frekar léttari rétti en þunga, þar sem að bjórinn er mildur og á einkar vel við sumarrétti. Appelsínubörkurinn, gerið og kóríander samsvarar ansi mörgum kryddum, sérstaklega þjóðlegum kryddum Austurlandanna.

Þetta er ekki endilega bara um matarpörun. La Trappe Witte getur komið í staðinn fyrir þurra freyðivínið í byrjun matarboðsins. Hann meira að segja virkar með flestum forréttum sem hægt er að bera fram, svo lengi sem það er ekki með wasabi eða sterkri chilirót. Heimavöllur þessa bjórs er þó eflaust salöt. Það skiptir nánast ekki mála hvernig salat það er. Ef það á að vera annaðhvort ediksósa (vinaigrette) eða einhversskonar sítrus- salatsósa þá virkar þessi bjór. Hann elskar ferkst grænmeti, hveitið gefur af sér örlítið reykt bragð sem tekur beikoni og mildu kjöti opnum örmum, kjúklingur og fiskur fer vel með honum og flestir mildir ostar, svissneskir ostar eða geitaostar. Það er fallegur sumardagur. Skelltu í einfalt ceasar-salat með smá kjúkling og parmesan, helltu þér Witte í kampavínsglas og sittu úti í sólinni og njóttu lífsins. Hveitikarakter bjórsins gerir það að verkum að flest sem getur verið í salati með honum, er hægt að setja á brauð og bera fram.

Witte og fiskur er efni í bók. Ertu með einfalda ýsu eða flatfisk eldaðan í álpappír með smjöri og kryddjurtum á grillinu? Hann elskar það. Ertu með reyktan lax, grillaðan og borinn fram með hvítlauks-, og dillsmjör fylltum kartöflum? Virkar alveg jafn vel. Bjórinn er nógu fínlegur til að dansa við flatfiskinn og kryddkarakter bjórsins frá gerinu tekur við kryddjurtunum, en hann hefur þennan örlítið reykta karakter frá hveitinu og nægilega flókið bragð til að ráða við laxinn, þar sem kolsýran og olía fisksins verða bestu vinir. Hvítlauksmarineraður humar og Witte er sömuleiðis bestu mátar, en ekki má gleyma kóngarækjunum, krabbanum og skötuselnum.

Gott er að nota bjórinn með fersku pasta, hvort sem er með fisk eða hvítlauk. Frábær réttur er að sjóða pasta, eins og linguine og steikja kjúkling með hvítlauk og kóríander, skella svo saman í skál með ólívu olíu og

maldon salti, rífa svo smá kóríander yfir og bera fram með þessum. Auðvitað má gera nákvæmlega sama með humri eða krabbakjöti t.d.

Þá er, eins og sagt er í fyrri kafla, hægt að leita til matargerðar heimsins. Hvort sem í þá í austri, eða suðvestur til Mexikó, þá gengur það. Mexikósk, indversk og tælensk matargerð eiga það allar sameiginlegt að nýta ljós krydd í matinn sinn, eins og sítrus og kóríander, tamarind og kúmin. Þetta líkar sítrusnum og kryddkarakter bjórsins vel. Og allt frá fiski, nauta eða kjúklingataco, til nautakjöts með núðlum í hnetusósu fer með bjórnum. Þá er sushi alls ekki með galið með Witte, en engifer og svona bjórar eru góðir vinir og maður er yfirleitt með léttan fisk með engiferinu. Mild sýran og góð kolsýra bjórsins virkar afar vel með góðu sushi hlaðborði.

Eftirréttir eru ekki hans sterkasta hlið. Helst bara ef við vinnum einfalda eftirrétti með t.d. appelsínu, sítrónu, melónu, banana eða engifer. Ávaxta frauðís, kannski heimatilbúinn appelsínufrauðís, eða kannski engifer frauðís. Sítrónu eða appelsínu panna cotta. En ég myndi satt að segja láta aðra bjóra um eftirréttina. Ostarnir þurfa að vera frekar mildir. Ferskir geita ostar, chevré, þá líka fetaostur (sem oft er í afar Witte-vænum kryddlegi) og örlítið reyktur Gouda. Fastir kúamjólkur ostar með smá pipar eða helst hvítlauk af Monterey „ættinni“ virka vel. Hinn bragðmildi kúa-, og geitamjólkurostur Edam. Svo er skemmtileg tilraun að prófa hann með nokkuð þroskuðum Parmesan ost. Þennan er sniðugt að nota í salat, sem og Mescarpone, og reyndar alla sem ég nefndi.

La Trappe Bockbier er dökk brúnn bjór með rauðum blæ. (er hægt að fá frá La Trappe hvort þeir noti einungis lager ger í hann, eða hvort öl ger sé notað á einhverjum tímapunkt gerjunar. Það væri líka skemmtilegt að heyra hversu lengi þeir þroska hann..) Maður fær fallega brúna froðu og frískandi kolsýru. Þetta er einn af þessum bjórum sem maður virðist gleyma þess á milli sem maður drekkur hann, en man svo hversu skemmtilegur hann er. Í lykt eru nokkuð klassísk einkenni eins og malt, karamella og vottur af spíra. En það gerir hann skemmtilegra ilmur af kakódufti, dökkum ávöxtum eins og fíkjum og kryddum. Í bragði læðist með ákveðið brauðbragð, eins og léttristað brauð, saman við maltið, kakóduftið og dökka, þurrkaða ávexti. Kryddið heldur sínum velli sömuleiðis. Í sætari kantinum, með frískandi kolsýru.

Hvernig pörum við hann með mat? Þessi bjór elskar grillmat. Hann elskar jarðtengt bragð. Sætt, örlítið reykt, byggbragðið er mjög hrifið af saltara, hvítu kjöti eins og svíni á meðan þú ert með dökkt malt og sæta miðju sem fer einstaklega vel með villtu kjöti. Þessi sama sæta, ásamt kryddinu ræður vel við létt kryddaðan mat, eins og mexíkóskan mole kjúkling eða bara gamla góða tacóið. Með reyknum og kryddinu getum við skoðað kryddaðar pylsur. Maltsætan ræður ansi mikið ferðinni, á meðan hin ýmsu bragðeinkenni hjálpa til, en ná ekki að stjórna.

La Trappe Bockbier er ansi magnaður hamborgarabjór. T.d. með uppskriftinni að neðan, en gott er að steikja kjötið upp úr bjórnum. Það má nota nokkurn veginn hvað sem er á borgarann og þessi kann að meta það. Sveppi, beikon, osta, ávexti, humar, það ætti allt að virka.

En tökum þetta frá byrjun. Þetta er bjór sem gæti mögulega sloppið með salati, ef það eru hnetur í því. Hægt væri að gera þægilegt salat, án þess að hafa súra dressingu, með spínati, hnetum, fíkjum, döðlum og ost, eins og gráðaost og þá myndi þessi bjór virka vel. Næst mætti nefna súpur. Bjórinn virkar prýðilega með matmiklum súpum, eins og góðri mexíkóskri súpu. Ekki er líka verra, með góða, matmikla og þykka súpu að nota bjórinn í hana. Sama bragð mætti leika með góðri kássu, þar sem hann fer stórvel með líka. Kássan er best með góðu, rauðu kjöti og fullt af sveppum.

Oft er talað um tengsl bock bjóra og þýskra pylsa, en ég er ekki sammála því með þennan bjór. Það breytir því ekki að einhver gæti verið það. En frá pylsum í svínakjötið. Þessi er virkilega góður með svínakjöti, en með ýmsu meðlæti er hægt að gera pörunina ennþá betri. Þetta nær allt frá góðum forrétt, eins og góðum ost vafið inní góða hráskinku, eins og kannski þroskaður Emmenthaler eða Gruére vafinn inn í Parmaskinku og góða svínalund væri hægt að gera enn betri með gráðaost og eplum troðið inní hana.

Nú af öðru kjöti er eins og gott nautakjöt með sveppasósu og gott íslenskt lambalæri. Hreindýrið gengur líka vel og nokkrir fiðraðir vinir okkar, eins og öndin er frábær með Bockbier. Lambið tekur þó vinninginn af því kjöti. Þá má ekki gleyma mexíkóskum mat. Þá erum við að tala um nautahakk, kjúkling eða fisk, með fullt af baunum, sveppur, mole og grænmeti. Sveppa leyfa manni líka ýmsa ítalska pastarétti.

Eftir matinn er þessi ekki sá fyrsti sem ég myndi grípa, nema bara til að hafa kannski einan og sér en margar súkkulaði kökur virka, romm kökur, hnetukökur og svo búðingar, eins og créme brúlée. Hvað með osta? Ekki skemmir of osturinn er pínu sætur og hann má hafa aldur. Þá eru hnetuviðbætur ekkert ógeðslegar. En ostar eins og gouda (fæst með valhnetum reglulega), svissneskir ostar eins og Emmenthaler, sveitabjórarar eins og Mimolette, fastir ostar eins og Limburger og svo gráðaostar. Kóngurinn er samt líklegast föstu ostarnir frá Sviss.

La Trappe Isid ́or gefur okkur fallega bronslitaða ásjónu með þykkri froðu. Í nefi eru bæði esterar og fenólar frá gerinu. Esterar eins og banani, pera og tyggjó og krydd, eins og negull fenólar. Smá humlar, brenndur sykur og karamella fylgja svo með. Ávextirnir eru fyrirferðamiklir í bragðinu, sem og kryddið. Púðursykur, appelsínur og jörð blandar sér með í dansinn og endar þurr með frískandi kolsýru á tungunni. Hann er eins og við er að búast af stílnum, en kannski ögn mannblendnari en bræður hans. Þessi bjór er stórkostlegur matarbjór og ef ég ætti að velja aðeins einn úr La Trappe fjölskyldunni fyrir allar matarparanir, þá væri það þessi.

Hvernig pörum við hann með mat? Þetta er bjór með ekkert sérstaklega fyrirferða miklu malti, heldur er það ávöxtur, krydd og sveit frá gerinu og kolsýra sem ráða ferðinni. Þetta gefur okkur marga möguleika með kryddum, sérstaklega jurtakryddum eins og hvítlauk og basilíku, við getum ráðist á fitumikla fiska og rétti með smjöri með kolsýrunni. Sítruskarakter bjórsins leyfir okkur að nota sítrónu á ýmsa rétti.

Þetta gefur okkur ýmsa kosti. Við getum notað hann með salati, þó að eins og Wit, Blonde og Tilburg ́s Brown Ale henti allir betur þar. En dragðu fram gott alioli með einföldu salati og þú getur notað Isid ́or. Af fiskréttum standa manni ansi margar dyr opnar. Forréttir eins og ostrur, rækjur og að sjálfsögðu hvítlauks- marineraður humar. Kolsýran í bjórnum og þægilegur biturleikinn virkar eins og þægilegt þurrt freyðivín með ostrunum og rækjunum og má hafa sæta, súra eða sterka sósu með (missir tökin í öfgum þó). Nú getum við farið í léttan, magran fisk og fínleiki bjórsins leyfir okkur að njóta þess. Kreystu smá sítrónu og stráðu basilíku og hvítlauk yfir hann. Njóttu þess samt enn betur með ögn feitum fisk eins og lax eða steinbít. Feitur fiskur að indverskum eða tælenskum sið getur einnig passað með Isid ́or. Fitan í fisknum og matargerðinni er skorin af kolsýrunni á meðan kryddið frá gerinu spilar með kryddinu frá Indlandi og Tælandi.

Pestó, basilíka og hvítlaukur og Isid ́or fara vel saman ekki satt? Jú, og því er Isid ́or mjög góður með mörgum pastaréttum. Hægt er að nefna ansi marga pastarétti, en einfaldur pastaréttur með áðurnefndum hráefnum, púrrulauk, steinselju og olíu og má alveg bæta við kjúkling og/eða hráskinku. Linguini með humri og hvítlauk er eitthvað sem kallar líka á bjórinn. Má alveg hafa það örlítið sterkkryddað líka.

Hvítt kjöt er heimavöllur bjórsins. Hægt er að matreiða kjúkling á ansi marga vegu. Í persónulegu uppáhaldi eru kjúklingabringur kryddaðar með hvítlaukspipar og salti, fylltar með einhverjum þægilegum ost, getur verið chevré, ungur gráðaostur eða bara næsti brie út úr búð. Borið fram með bakaðri kartöflu og kaldri hvítlaukssósu eða frönskum og alioli og góðu salati. Það skemmtilega er að þetta þarf ekki að vera kjúklingur, það mætti gera nákvæmlega sömu formúlu með lambafille eða svínalund. Fleiri kjúklingaréttir sem virka? Heilsteiktur kjúklingur, vel nuddaður með kryddjurta og hvítlauksblöndu. Að sumri til er hægt að setja kjúklingabita og gott grænmeti eins og lauk á spjót og grilla. Fyrir smá auka skemmtun, má bæta við humri á spjótin. Íslenska lambið, með sínu jurtakryddi er frábært með þessum bjór.

Þetta er ekki bjór sem ég hleyp á eftir fyrir eftirrétti. Einfaldir eftirréttir eins og smjördeig virka þó með honum. Mildir ávaxtaeftirréttir, ávaxta panna cotta og sítrus frauðís.. En ostarnir eru annað mál. Eins og svo margir bjórar að belgískum sið, er þessi frábær með ostum. Franskir ostar með smá fönk, eins og Mimolette eru stórkostlegir með Isid ́or. Bragðmiklir og kremaðir mjúkir ostar eins og Munster og Taleggio, með mikinn sveita ilm og oft ávexti í lykt ganga stórkostlega með bjórnum af sömu ástæðu og Mimolette. Frábær pörun með bjórnum eru „triple-créme“ ostar, eins og Brillat-Savarin, en bjórinn kolsýra og biturleiki bjórsins hjálpa okkur að skera í gegnum ostinn sem er afar feitur. Vel þroskaður chévre

Við getum líka leitað í fasta osta. Það er þá sérstaklega Gouda. Hann virkar með Gouda af nánast hvaða aldri sem er, en aldurinn hjálpar. Það er eins og kolsýran í bjórnum hrærir upp í áferð ostsins og mýkir hana, biturleiki bjórsins fær að njóta sín með sætunni og því færðu pörun sem virkar frábærlega á tunguna, með skemmtilegu samspili af ávöxtum og karamellu.

Nýlegar fréttir
0

Leitið og þér munið finna